Síðasta fjölliðamót vetrarins í 10. flokki drengja í körfuknattleiksdeild Vestra fór fram á Torfnesi um nýliðna helgi. Var keppt í B-riðli en Vestradrengir gerðu sér lítið fyrir og unnu alla leiki helginnar. Þeir hófu keppni í haust í D-riðli. Auk Vestra tóku lið Vals, Hauka og Skallagríms þátt en lið Fjölnis þurfti frá að hverfa vegna veðurs en þeir höfðu ætlað að fljúga vestur. Hin liðin þrjú sameinuðustu um rútuferð og þrátt fyrir hremmingar á Steingrímsfjarðarheiði mættu þau galvösk til leiks, tæpum þremur tímum á eftir áætlun, og sýndu oft og tíðum flott tilþrif þrátt fyrir langt og strangt ferðalag. Til að koma til móts við Fjölnismenn býðst þeim að leika sína leiki síðar en þegar þetta er skrifað er óvíst hvort af því verður.
Lið Vestra skipuðu: Daníel Wale Adeleye, Þorleifur Ingólfsson, Stefán Snær Ragnarsson, Hugi og Hilmir Hallgrímssynir, Egill Fjölnisson, Krzysztof Duda, Blessed og James Parilla og Friðrik Heiðar Vignisson. Það er Yngvi Gunnlaugsson, yfirþjálfari Vestra, sem hefur stýrt strákunum með þessu góða árangri í vetur.
Vestramenn geta verið mjög sáttir við árangur vetrarins. Liðið tapaði einungis þremur leikjum, tveimur í deild og einum í bikar. Fæstir leikmannanna eru á 10. flokksaldri og því eru þeir reynslunni ríkari fyrir vikið. Einnig hefur breiddin aukist og nýir iðkendur bæst við. Það sem gerir liðið einstakt er að í því eru drengir allstaðar að af Vestfjörðum; Ísafirði, Suðureyri, Hólmavík og Bolungarvík auk þess sem þjálfarinn hóf sinn körfuboltaferil á Tálknafirði.
smari@bb.is