Heimildarmyndin Ishavsblod – De siste selfangerne, eða Sealers – the last hunt líkt og hún nefnist upp á enska tungu verður sýnd í Edinborgarhúsinu í kvöld klukkan 19. Myndin sem er gerð af norsku kvikmyndargerðarkonunum Gry Elisabeth Mortensen og Trude Ottersen var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni IDFA í Asterdam í nóvember á síðasta ári og í byrjun janúar var hún svo frumsýnd í Noregi. Sealers segir af áhöfn selveiðiskipsins Havsel sem er reglulegur gestur í Ísafjarðarhöfn og veiðum þeirra við Grænlandsstrendur. Selveiðar hafa nánast lagst af hjá norðmönnum líkt og fleiri þjóðum, en Havsel er eina selveiðiskipið sem gert er út frá Noregi, sem er mikil breyting frá því í upphafi 20.aldar er þau voru 200. Veiðarnar sem hafa verið mikið gagnrýndar af dýraverndunarsinnum eru deyjandi grein og þrátt fyrir að vera eina selveiðiskip norðmanna, þá heldur það einungis í einn túr á ári, sem stendur í um sjö vikur.
Myndin hefur fengið frábærar viðtökur, hún er með 8,6 í einkunn á IMDb, sem telst afar gott og hefur margoft verið uppselt á sýningar á henni. Heimamenn í Noregi hafa verið forvitnir að bera augum síðustu selveiðimennina sem halda merkjum þessarar gömlu hefðar á lofti í nokkrar vikur á ári á milli þess sem þeir sinna öðrum störfum þar sem enginn þeirra hefur selveiðar að aðalstarfi.
Nú stendur yfir árviss heimsókn Havsel til Ísafjarðar áður en áhöfnin heldur á veiðar og í kvöld gefst Ísfirðingum og nærsveitungum kostur á að bera Sealers augum. Selveiðimennirnir verða á staðnum og bjóða gestum að smakka selkjöt á milli 18:30 og 19 og einnig munu þeir sitja fyrir svörum að sýningu myndarinnar lokinni. Myndin er um einn og hálfur klukkutími að lengd og er hún á norsku með enskum texta. Enginn aðgangseyrir verður á myndina en baukur á staðnum fyrir frjáls framlög gesta.
Hér má sjá stiklu úr myndinni.