Rýmka kosti húsnæðisamvinnufélaga

Félags- og húsnæðismálaráðherra með nýtt frumvarp um húsnæðissamvinnufélög. Mynd: mbl.is /Eggert

Þorsteinn Víglundsson félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög sem hefur það markmið að rýmka kosti þeirra til fjármögnunar og stuðla þannig betur að sjálfbærum rekstri þeirra.

Samkvæmt gildandi lögum er fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga bundin við lántökur hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum. Ákvæði laganna hvað þetta varðar hafa þótt binda hendur húsnæðissamvinnufélaga um of og koma í veg fyrir að þau geti fjármagnað sig með öðrum hætti sem kann að henta betur og vera hagstæðari fyrir félögin.

Með frumvarpi ráðherra er lagt til að þessar heimildir verið rýmkaðar þannig að félögunum verði heimilt að taka lán á almennum markaði og einnig að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa.

Markmið þeirrar lagabreytingar sem nú er fyrirhugað er að stuðla enn frekar að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga. Þannig geti húsnæðissamvinnufélög kosið þá fjármögnun sem er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni.

smari@bb.is

 

 

DEILA