Petter Northug í Fossavatnsgönguna

Einn öflugasti skíðagöngumaður veraldar hefur boðað komu sína í Fossavatnsgönguna á Ísafirði. Petter Northug – Undrið frá Þrændalögum – var um árabil ósigrandi líkt og þrútinn verðlaunapeningaskápur hans ber vitni um. Hápunkturinn á ferli hans til þessa er án vafa tvö gull á Ólympíuleikunum í Vancouver 2010. Þá hefur hann einnig unnið til fjölda verðlauna á heimsmeistaramótum og sætastir voru þrír heimsmeistaratitlar á heimavelli á HM í Ósló árið 2011 og í fersku minni eru fjögur gull á HM í Falun 2015.

Northug er alhliða skíðamaður, sterkur í öllum vegalengdum og öflugur bæði með frjálsri og hefðbundinni aðferð. Sterkasta hlið Northug og það sem gerir hann að áhorfendavænum skíðagöngumanni eru firnasterkir endasprettir.

„Northug er stærsti fengurinn sem við höfum náð og hafa þó mjög sterkir skíðagöngumenn komið til okkar i gegnum árin. Skemmst er að minnast að Justyna Kowalczyk tók þátt í fyrra og sigraði nokkuð örugglega,“ segir Daníel Jakobsson, formaður Fossavatnsgöngunnar.

Daníel bendir á að hinn almenni Íslendingur átti sig kannski ekki á hversu stórt nafn Petter Northug er. „Hann er langvinsælasti íþróttamaður Norðmanna og súperstjarna sem skíðagönguíþróttin á heimsvísu hefur ekki séð áður.“

Hér gefur að líta frægan endasprett Petter Northug á HM í Falun 2015.

DEILA