Það er mikið um að vera hjá Fræðslumiðstöðinni í maí. Mörg spennandi námskeið eru framundan og flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Fyrst má nefna fjögur stutt námskeið fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem miðast að því að þjálfa starfsfólk og vekja það til umhugsunar um starf sitt í þjónustukeðjunni. Námskeiðin fjalla um meðhöndlun matvæla, mikilvægi hreinlætis, þrif og þjónustu.
Nú í vor verður Fræðslumiðstöðin með fjögur endurmenntunarnámskeið fyrir bílstjóra í vöruflutningum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Atvinnubílstjórum með ökuréttindi í flokkum C1, C, D1 og D er gert að sækja 35 kennslustunda endurmenntun á fimm ára fresti. Þeir bílstjórar sem fengið hafa réttindi sín fyrir 10. september 2013 þurfa að ljúka endurmenntun fyrir 10. september 2018. Fræðslumiðstöðin hefur fengið viðurkenningu frá Samgöngustofu til þess að bjóða upp á þessa endurmenntun og er það skemmtileg viðbót við námskeiðaflóruna hjá okkur.
Í samstarfi við fræðslusetrið Starfsmennt verður boðið upp á frítt námskeið um stjórnun álags og streitu fyrir þá sem greiða í SFR, VerkVest og Verkalýðs- og Sjómannafélag Bolungarvíkur. Námskeiðið verður 17. maí og leiðbeinandi er Ingrid Kuhlmann. Skráningar fara í gegnum Starfsmennt í síma 550-0060. Aðrir eru velkomnir en greiða þá fullt námskeiðsgjald.
Bandalag Háskólamanna mun bjóða upp á námskeið eða vinnustofu um framsækni og öruggri tjáningu í samstarfi við Fræðslumiðstöðina þann 11. maí. Leiðbeinandi á námskeiðinu er hin landsþekkta Sigríður Arnardóttir, betur þekkt úr þáttunum Fólk með Sirrý. Námskeiðið er frítt fyrir þá sem greiða í BHM en aðrir greiða fullt þátttökugjald. Skráning fer fram í gegnum heimasíðu eða síma Fræðslumiðstöðvarinnar.
bryndis@bb.is