Líkja eftir alvarlegu sjóslysi

Skemmtiferðaskip sigla í auknum mæli til Ísland og á norðurslóðir.

Ekkert land getur brugðist við sjávarháska skemmtiferðaskipa á norðurslóðum á eigin spýtur. Það getur tekið allt að fjóra daga fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar að komast á vettvang slyss og því mikilvægt að virkja nálæg veiði- og farþegaskip. Landhelgisgæslan, Samtök útgerða skemmtiferðaskipa á norðurslóðum og leitar- og björgunarmiðstöðin í Norður-Noregi halda í dag og á morgun viðbragðsæfingu vegna umferðar skemmtiferðaskipa. Þar verður líkt eftir alvarlegu sjóslysi. Markmiðið er að styrkja samstarf, auka þekkingu og upplýsingamiðlun þátttakendanna með áherslu á björgun farþega af farþegaskipum á norðurslóðum.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar segir í samtali við fréttastofu RÚV að mikilvægt sé að yfirvöld, útgerðir og allir þeir sem sinna leit og björgun séu vel undir það búnir að bregðast við hættuástandi á svæðinu.

„Það er hægt að segja að við séum ekki nægjanlega vel í stakk búin og það er í raun enginn. Það getur ekkert eitt ríki borið ábyrgð á þessu eða séð um það sem kann að geta gerst þegar um er að ræða fleiri hundruð manns um borð í einu skipi sem lendir í vandræðum,“ segir Georg.

DEILA