Leggja til róttækar breytingar á strandveiðikerfinu

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, mælir fyrir frumvarpi um breytingu á strandveiðikerfinu. Breytingin felur í sér að horfið verður frá heildarpottum hvers strandveiðisvæðis og strandveiðibátum verður úthlutað 12 veiðidögum í fjóra mánuði, frá maí til ágúst. Frumvarpið gerir ráð fyrir að breytingin sem lögð er til gildi aðeins fyrir strandveiðitímabilið sem hefst 2. maí næstkomandi. Ekki þykir rétt að hafa 12 daga val ótímabundið þar sem óvissa er um hversu mikið strandveiðibátar veiða með þessu breytta fyrirkomulagi. Áfram verði óheimilt að róa á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og sömu takmarkanir verði á veiði hvers dags.

Meðflutningsmenn frumvarpsins eru samflokksmenn Lilju Rafneyjar, þau Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að að breytingin feli í sér aðgerð til að auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum. Sá ágalli hefur verið á gildandi fyrirkomulagi að veiðarnar hafa verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilað er á sem skemmstum tíma og áður en aflaheimildin yrði upp urin. Þetta hefur leitt til þess að stundum hafa menn róið á minni bátum þótt ekki viðraði til þess og fylgir því að sjálfsögðu aukin slysahætta. Flutningsmenn telja að með lagabreytingunni verði dregið mjög út hvata  til „ólympískrar“ sóknar og þar með slysahættu.

Þá er bent á að frá árinu 2011 hefur þorskafli í strandveiðum ekki fylgt aukningu heildarafla. Alls 7.968 tonn vantar þar upp á. Síðasta sumar komu 8.550 tonn af þorski í hlut stranveiðimanna.

smari@bb.is

 

 

 

DEILA