Hinn heimsþekkti breski sjónvarpskokkur Jamie Oliver opnar veitingastað í Reykjavík síðar á árinu. Á Facebook síðu sinni skrifar sjónvarpskokkurinn að teymi á hans vegum hafi fengið það skemmtilega starf að útvega sjálfbæran fisk til að bjóða upp á veitinstaðnum í Reykjavík. Með skrifunum birtir hann mynd af sjókví Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði og mærir arnfirska fjallahringinn í hvívetna.
„Hann ætlar að kaupa lax af okkur,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. „Þetta er stórkostleg viðurkenning fyrir gott íslenskt hráefni.“ Jamie Oliver rekur veitingastaði um allan heim. Fyrst um sinn mun hann kaupa lax af Arnarlaxi fyrir reykvíska veitingastaðinn, en Víkingur segir ekki útilokað eitt leiði af öðru og vestfirskur lax verði seldur á fleiri veitingastöðum í eigu sjónvarpskokksins knáa.
„Þetta er ógeðslegt Jamie“
En það eru ekki allir ánægðir með þetta uppátæki Jamie Oliver. Íslenskir stangveiðimenn fara mikinn í kommentakerfi kokksins og fordæma athæfið. „Þetta er ógeðslegt Jamie Oliver. Ég ætla aldrei að borða á staðnum þínum og mun upplýsa viðskiptavini mína um halda sig fjarri,“ skrifar einn bálreiður stangveiðimaður.
„Ég er í áfalli, algjöru áfalli,“ skrifar annar og bætir við: „Risa mistök og fjöldi fólks mun hunsa staðinn þinn algjörlega.“
„Að styðja þennan hættulega og mengandi iðnað er hernaður gegn náttúrunni,“ bendir annar íslenskur stangaveiðimaður á.
smari@bb.is