Úthlutunarnefnd Íbúðalánasjóðs hefur samþykkt umsókn Ísafjarðarbæjar um stofnframlög fyrir leiguhúsnæði. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að strax verði hafist handa við að undirbúa framkvæmdir. „Það er búið að grófhanna húsið en það verður við Sindragötu 4a, á gamla sláturhúsplaninu. Næsta skref er að fullhanna húsið,“ segir Gísli Halldór.
Alls verða 13 íbúðir í húsinu, en tvær þeirra verða seldar á frjálsum markaði. Stofnframlag ríkisin er vegna 11 leiguíbúða. Þar af verða 5 sem ætlaðar eru fötluðu fólki og 6 sem ætlaðar eru fólki undir tekju- og eignamörkum. Stofnframlagið skiptist í þrennt, 18% er grunnframlag ríkisins, 6% viðbótarframlag vegna markaðsbrests á svæðinu og 4% vegna þeirra íbúða sem ætlaðar eru fötluðum. Alls er stofnframlagið metið á 57 milljónir króna.
Að sögn Gísla Halldórs verður húsið byggt af Fasteignum Ísafjarðarbæjar.
Ekkert hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði á Ísafirði í áratug eða meira. „Þetta orðið allt of langur tími og mikil þörf hefur safnast upp,“ segir bæjarstjórinn sem stefnir að því að húsið verði fullbúið á næsta ári.