Heiðarnar mokaðar í dag

Mokstur á Hrafnseyrarheiði. Mynd úr safni.

Mokstursmenn eru að störfum á Hrafnseyrarheiði og vegurinn verður fær fljótlega upp úr hádegi í dag. Vegurinn um Dynjandisheiði ætti að vera fær seinnipartinn í dag. Heiðarnar voru mokaðar í lok mars en tepptust á ný í í norðanáttunum sem hafa ríkt upp á síðkastið. „Það kom reyndar á óvart hvað það hefur bætt lítið í snjó á heiðunum miðað við veðurfarið norðan heiða. En það er ekkert nýtt að það dragi úr norðaustanáttinni þegar vestar dregur,“ segir Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði.

Miðað við veðurspá er nokkuð líklegt að vesturleiðin verði fær um páskana. Guðmundur bendir þó á fljótt skipast veður í lofti á fjallvegum og hann hvetur fólk til að fylgjast með veðurspá hyggi það ferðir um fjallvegi. „Við verðum ekki mikið á ferðinni á föstudaginn langa og páskadag að fylgjast með færð en við reynum að hafa kortin okkar eins vel uppfærð og kostur er,“ segir hann.

smari@bb.is

 

DEILA