Hall­inn 37,5 millj­arðar

Löndun í Bolungarvík.

Hall­inn á vöru­skipt­in við út­lönd var 37,5 millj­arðar króna á fyrsta árs­fjórðungi en á sama tíma í fyrra var hann óhag­stæður um 25,6 millj­arða. Þetta kem­ur fram í frétt Hag­stofu Íslands.

Í mars voru flutt­ar út vör­ur fyr­ir 39,5 millj­arða króna og inn fyr­ir 55,6 millj­arða króna. Vöru­viðskipt­in í mars voru því óhag­stæð um 16,1 millj­arð króna. Í mars 2016 voru vöru­viðskipt­in óhag­stæð um 22,1 millj­arð króna á gengi hvors árs.

Á fyrsta árs­fjórðungi árs­ins 2017 voru flutt­ar út vör­ur fyr­ir 108,6 millj­arða króna en inn fyr­ir 146,1 millj­arð. Halli var því á vöru­viðskipt­um við út­lönd sem nam 37,5 millj­örðum króna, reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma árið áður voru vöru­viðskipt­in óhag­stæð um 25,6 millj­arða á gengi hvors árs. Vöru­viðskipta­jöfnuður­inn var því 11,9 millj­örðum króna lak­ari en á sama tíma árið áður.

Á fyrsta árs­fjórðungi árs­ins 2017 var verðmæti vöru­út­flutn­ings 23,9 millj­örðum króna lægra, eða 18,1%, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. Iðnaðar­vör­ur voru 58,9% alls út­flutn­ings og var verðmæti þeirra 3,2% lægra en á sama tíma árið áður. Sjáv­ar­af­urðir voru 34,5% alls vöru­út­flutn­ings og var verðmæti þeirra 35,4% lægra en á sama tíma árið áður, vegna verðlækk­un­ar. Auk þess má reikna með að áhrifa af verk­falli sjó­manna gæti enn í töl­un­um.

DEILA