Hallinn á vöruskiptin við útlönd var 37,5 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra var hann óhagstæður um 25,6 milljarða. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.
Í mars voru fluttar út vörur fyrir 39,5 milljarða króna og inn fyrir 55,6 milljarða króna. Vöruviðskiptin í mars voru því óhagstæð um 16,1 milljarð króna. Í mars 2016 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 22,1 milljarð króna á gengi hvors árs.
Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 voru fluttar út vörur fyrir 108,6 milljarða króna en inn fyrir 146,1 milljarð. Halli var því á vöruviðskiptum við útlönd sem nam 37,5 milljörðum króna, reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma árið áður voru vöruviðskiptin óhagstæð um 25,6 milljarða á gengi hvors árs. Vöruviðskiptajöfnuðurinn var því 11,9 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.
Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 var verðmæti vöruútflutnings 23,9 milljörðum króna lægra, eða 18,1%, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 58,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,2% lægra en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 34,5% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 35,4% lægra en á sama tíma árið áður, vegna verðlækkunar. Auk þess má reikna með að áhrifa af verkfalli sjómanna gæti enn í tölunum.