„Við erum ekki á móti fiskeldi, heldur viljum við koma í veg fyrir að það hafi áhrif á villta lax- og silungsstofna hér á landi. Ef menn ala fiskinn í landstöðvum eða finna leiðir til að gera það í hafinu án áhrifa á umhverfið gerum við ekki athugasemdir við það,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga í viðtali í Morgunblaðinu.
Veiðifélög hafa varað sterklega við laxeldi í sjókvíum vegna stórtækra umhverfisáhrifa. Sjúkdómar og laxalús í stríðeldi eru meðal helstu áhyggjuefna stangaveiðimanna. Veiðifélögin hafa þó langmestar áhyggjur af erfðablöndun villtra laxastofna hér á landi.
Jón Helgi segir þetta um erfðablöndun í samhengi við laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi:
„Sá norski lax sem verið er að nota er með aðra erfðauppbyggingu en íslenskur lax. Hann hefur verið kynbættur mikið svo hann henti í eldi. Þegar verið er að ala jafn mikið magn og til dæmis er verið að tala um í Ísafjarðardjúpi þarf 15 milljónir laxa í kvíarnar. Það sleppur alltaf eitthvað. Reynslan frá Noregi bendir til að það sé einn lax á móti hverju tonni í eldi.
Eldismenn segja að það sé minna. En ef það væri einn fiskur á móti tonni má búast við að það sleppi 30 þúsund laxar í Ísafjarðardjúpi. Til samanburðar má geta þess að laxastofnarnir í Djúpinu telja 150 til 500 fiska hver stofn. Það segir sig sjálft að þeir myndu ekki þola þá blöndun sem því fylgdi. Laxinn missir þá erfðaeiginleika sem honum eru nauðsynlegir til að halda lífi í sínu náttúrulega umhverfi. Við teljum að þetta varði við náttúruverndarlög. Engum sé heimilt að valda slíkum skaða á náttúrunni.“
Hann sér enga aðra lausn en að nota geldan lax í eldinu.
smari@bb.is