Ekki aftur snúið úr þessu

Hrafnseyrarheiðin sýndi klærnar núna í sumarbyrjun og hleypti ekki fyrirmönnum með pennana á milli fjarða svo ekki var hægt að undirrita samninga við verktaka á Sumardaginn fyrsta á Hrafnseyri eins og til stóð. Engu að síður voru samningar undirritaðir, í Reykjavík, og núna verður ekki aftur snúið. Langþráð samgöngubót verður að veruleika og ef allt gengur samkvæmt áætlun munu Dýrafjarðargöng opna haustið 2020.

Frá undirritun samninga

Það er reyndar vonum seinna ef marka má væntingar skólabarna á Þingeyri fyrir 10 árum síðan er þau tóku fyrstu skóflastunguna og hófu að grafa. Um 70 manns, börn, foreldrar og kennarar frömdu þennan gjörning vegna síendurtekinna svika yfirvalda. Á mbl.is var fjallað um málið á sínum tíma og kom þetta fram:

Skólabörn á Þingeyri hófu að grafa fyrir göngunum í júní 2010

„Í skól­an­um var sett fyr­ir það verk­efni hjá krökk­un­um að búa til stjórn­mála­flokk á Vest­fjörðum og kynna 10 mál­efni sem flokk­ur­inn legði mesta áherslu á.  All­ir hóp­arn­ir voru með Dýra­fjarðagöng of­ar­lega á lista, að sögn Júlí­us­ar Arn­ar­son­ar kenn­ara. Kom þá hug­mynd­in fram um að byrja að grafa göng­in sjálf og von­ast eft­ir því að stjórn­völd komi og hjálpi til, er þau sjá til­gang og tíma til að grafa göng­in.“

Núverandi verkáætlun er svona í grófum dráttum:

2017

Verkið verður hafið Arnarfjarðarmegin. Flutningar á tækjum að verkstað hefjast í maí. Uppsetning vinnubúða og annarrar aðstöðu er áætlað að hefjist í maí  og ljúki að miklu leyti í Júní.  Forskeringar fari fram í júní og júlí  samfara einhverri vegagerð.  Gangagröftur Arnarfjarðarmegin hefjist í ágúst.

2018

Verður mest allt árið grafið frá Arnarfirði, þar verða byggðar brýr og unnið að vegagerð.  Dýrafjarðarmegin verður unnið að undirbúningi forskeringar og vegagerð og áætlað að byrja að grafa göng í desember 2018.

2019

Frágangur i göngunum Arnarfjarðarmegin.  Gangagröftur Dýrafjarðarmegin fram í ágúst þegar gegnumbrot er áætlað. Vegskálar verða byggðir og vegagerð utan ganga lokið að mestu leyti.

2019 til 2020

Eftir gegnumbrot verður unnið að styrkingum í göngum, klæðingu og öllum frágangi með vegi og rafbúnaði  fram að verklokum sem áætluð eru 1. september 2020.

bryndis@bb.is

DEILA