Bæjaryfirvöld á Ísafirði hafa ekkert heyrt síðan um áramót í forsvarsmönnum kanadíska fjárfestingafyrirtækisins Amel Group, sem óskuðu síðasta sumar eftir viðræðum um stórfelldan útflutning á íslensku vatni. Þetta staðfestir Gísli Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, í samtali við Markaðinn, viðskiptakálf Viðskiptablaðsins. „Þeir hafa ekki svarað okkur síðan við kynntum þeim okkar skilmála um síðustu áramót,“ segir Gísli. Bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkti í september í fyrra að fyrirtækið mætti hefja rannsóknir á vatninu og var skrifað undir viljayfirlýsingu.
Kaldalind ehf. hefur hefur forgangsrétt að umframvatni í Skutulsfirði. Eftir fyrirspurn Amel Group leiddi könnun Ísafjarðarbæjar í ljós að bærinn getur ekki komist út úr vatnssölusamningi við Köldulind, en samningurinn gengur úr gildi í september 2017, hafi fyrirtækið ekki nýtt sér forgangsrétt að vatni samkvæmt ákvæðum samningsins.
smari@bb.is