Leikdeild Höfrungs á Þingeyri hefur verið í hörku stuði í leikhúsinu síðustu ár og sett upp hverja stórsýninguna á fætur annarri. Í fyrra var það Kardemommubærinn, þar á undan Galdrakarlinn í Oz og þar áður sjálf Lína langsokkur. Enn eitt stórverkið kemur sér haganlega fyrir á listanum í dag, því í kvöld frumsýnir leikdeildin leikritið ástsæla Dýrin í Hálsaskógi. Leikdeild Höfrungs er sennilega eitt af öflugari áhugaleikfélögum landsins og þá sér í lagi sé litið til höfðatölu því ár hvert tekur fjöldinn allur þátt í uppfærslunum og því er eins farið að þessu sinni. Alls taka 17 leikarar þátt í sýningunni og annar eins hópur starfar að tjaldabaki, því þar sem margt sem þarf að gera þegar ævintýri eru sett á svið. Í þessu tilfelli þarf að útbúa heilan skóg og umbreyta mönnum í dýr, lýsa upp ævintýrið og svo ótal margt fleira. Síðan er að vanda einn sem heldur í alla spottana og sér til þess að hópurinn vinni saman sem einn maður og er það leikstjórinn Elfar Logi Hannesson.
Höfundur Dýranna í Hálsaskógi er hinn norski Thorbjörn Egner og hefur verkið verið eitt vinsælasta barnaleikrit hér á landi í 55 ár, eða allar götur frá því er Þjóðleikhúsið sýndi það fyrst leikhúsa árið 1962. Um þessar mundir er líka verið að frumsýna teiknimynd með þeim Lilla, Mikka og vinum í Hálsaskógi, svo það er nokkuð ljóst að dýrin munu halda áfram að skemmta komandi kynslóðum. Verkið hefur elst vel því enn eru lögmálin þau sömu um að öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Tónlistin úr verkinu er einnig afar vinsæl og ætlaði allt um koll að keyra á samfélagsmiðlum er Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fékk fólk með sér í söng á Dvel ég í draumahöll, sem er einmitt ættað úr Dýrunum í Hálsaskógi.
Fyrirhugaðar eru fimm sýningar í félagsheimilinu á Þingeyri. Frumsýning í kvöld klukkan 19.30, önnur sýning á morgun klukkan 13 og á páskum verða þrjár sýningar. Ein sýning á skírdag og tvær á föstudaginn langa. Miðasala hófst fyrir nokkru síðan og gengur mjög vel, nálgast má miða í síma: 659 8135.