Það er alltaf eitthvað skemmtilegt sem gerist fyrir Vestan um páskana og gildir þá einu hvort það sé lítið eða stórt, enda það oftar en ekki bundið við þá sem í hlut eiga eða þá sem vega það og meta. Þó er eitt víst að blessað lífið sem er stöðugum breytingum háð getur tekið nýja stefnu að afloknum páskum á Ísafirði. Nýliðin dymbilvika mun sennilega seint líða Bolvíkingnum Jóhanni Frímanni Rúnarssyni úr minni, en ástmaður hans Axel Ingi Árnason gerði sér lítið fyrir og bað hans í Edinborgarhúsinu fyrir fullum sal af fólki á Palla-balli að kvöldi föstudagsins langa. Jói og Axel hafa verið saman í rúmt ár og fékk Axel poppprinsinn Pál Óskar til liðs við sig sem kallaði grunlausan Jóa upp á svið þar sem Axel skellti sér á skeljarnar og bar fram bónorðið.
Jói segir í samtali við Bæjarins besta að hann hafi á föstudag grunað að eitthvað óvænt væri í uppsiglingu af hálfu Axels en að hann ætti þetta í vændum hvarflaði ekki að honum. Hann segir að þeir hafi rætt giftingu nánast allar götur frá því er þeir byrjuðu að vera saman, en höfðu þó ekki gert neitt í málunum – fyrr en nú.
Eins og gefur að skilja var þetta mikil gleðistund í lífi kærastaparsins og segir Jói geðshræringuna líka hafa verið mikla og frábært að vera umkringdur vinum sínum á þessu stóra augnabliki í lífinu. Restin af páskafríinu var svo meðal annars nýtt í að leggja drög að komandi brúðkaupi.
Hér má sjá myndband af bónorðinu. Í geðshræringunni kallaði Axel reyndar Jóa ekki alveg réttu nafni, en það kom ekki að sök, þar sem hann játaðist manni sínum glaður.
annska@bb.is