Blússveitin Akur heiðrar Bítlana

Hinir frábæru fjórmenningar frá Liverpool.

Nú er gengin í garð dagskrárhlaðnasta vika ársins á Ísafirði. Enn svífur talsverð mánudagsró yfir vötnum en eftir því sem líður á vikuna þéttist dagskráin frá degi til dags og á miðvikudag verður Skíðavikan sett með pompi og prakt á Silfurtorgi og markar setningin formlega upphaf páskadagskrárinnar sem er fjölbreytt og víðtæk og sannarlega ekki einungis bundin við Ísafjörð.

Blúshljómsveitin Akur, sem í Skíðavikunni á síðasta ári færði gestum Rolling Stones heiðurstónleika, telur í að nýju og í þetta sinn eru það ekki minni menn sem heiðraðir eru, sjálfir Bítlarnir. Boðið verður upp á tvenna tónleika í Edinborgarhúsinu, hinir fyrri á miðvikudagskvöldið og þeir seinni á fimmtudagskvöld. Það er Hjörtur Traustason sem syngur, en söng sinnir einnig hljómborðsleikarinn Stefán Steinar Jónsson, gítarleikarinn Guðmundur Hjaltason og bassaleikarinn Hlynur Kristjánsson, auk þeirra skipa sveitina gítarleikarinn Stefán Freyr Baldursson og trommarinn Jón Mar Össurarson. Trommur.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21 bæði kvöldin, en húsið opnar klukkustund fyrr. Miða má nálgast á miðasöluvefnum tix.is.

annska@bb.is

DEILA