Það var ekki auðvelt að ná sambandi við Daníel Jakobsson göngustjóra Fossavatnsgöngunnar, enda í mörg horn að líta hjá göngustjóranum rétt áður en fyrstu keppnisgreinarnar hefjast. Í dag verður keppt í 25 km göngu með frjálsri aðferð og einnig tvær stuttar göngur (1 km og 5 km) sem nefnast Fjölskyldufossavatnið.
„Það er allt að verða klárt hjá okkur. Spáin fyrir laugardag er ágæt og vindur er að ganga niður og það lítur vel út með göngurnar í dag,“ segir Daníel.
Aðalgangan fer fram á laugardaginn þegar hin eiginlega Fossavatnsganga verður gengin, en hún er 50 km löng. Aðspurður um sigurstranglegustu keppendurnar segir Daníel að Petter Northug komi að sjálfsögðu fyrstur upp í hugann. „Landsliðamaðurinn Snorri Einarsson mun veita honum harða keppni og sömuleiðis Skinstad bræðurnir frá Noregi og landi þeirra Runar Skaug Mathisen sem sigraði 25 km skautið í fyrra. Það getur allt gerst á íslenskum fjöllum svo Petter á sigurinn ekkert vísann.“
Í kvennagöngunni er hin sænska Britta Johansson Norgren sigurstranglegust. „Hún vann heimsbikarinn í lengri vegalengdum í vetur og sömuleiðis Vasagönguna. Hún gæti orðið fyrst kvenna til að ýta sér alla leið,“ segir Daníel.
Hann segir líklegt að þeir bestu sleppi að bera undir skíðin og ýti sér alla 50 kílómetrana. „Það fer eftir hitastiginu. Ef það verður frost og brautin frýs þá finnst mér alveg öruggt að þeir fremstu ýti sér alla leið.“
Mikill hæðamunur í brautinni – og þar af leiðandi mismunandi færi – veldur því að sögn Daníels að erfitt er að finna áburð sem hentar alla leiðina og því kjósi þeir allra sprækustu að fara gönguna á handaflinu einu saman.