Í dag er Dagur umhverfisins og hleypir Landvernd af stokkunum verkefninu, Hreinsum Ísland. Verkefnið stendur til 7.maí og er því ætlað að vekja athygli á þeim hættum sem fylgja plastmengun í hafi. Fólk verður sífellt meðvitaðra skaðsemi plasts í umhverfinu og í þessu átaki vill Landvernd hvetja fólk til að nota minna plast, kaupa minna og auka endurvinnslu. Í tilefni dagsins opnaði Landvernd heimasíðuna hreinsumisland.is
Átakinu verður hleypt af stokkunum við ströndina við Sjálandsskóla í Garðabæ en nemendur Sjálandsskóla hafa vakið athygli á plastmengun þ.m.t. plastmengun í sjó og hreinsa reglulega strandlengjur í nágrenni skólans. Á viðburðinum ætla nemendur fara út á sjó á kayökum og munu draga plastskrímsli af sjónum að landi. Annar viðburður verður þann 6. maí næstkomandi en þá fer fram Norræni strandhreinsunardagurinn á Snæfellsnesi. Þá verða hreinsaðar þrjár strendur á Snæfellsnesi og fer samtímis fram strandhreinsun á öllum Norðurlöndunum. Auk fjölda sjálfboðaliða mun Umhverfis- og auðlindaráðherra Björt Ólafsdóttir taka þátt í Strandhreinsun á Snæfellsnesi.
Hægt er að skipuleggja sína eigin strandhreinsun sem má skrá á hinni nýju heimasíðu, þar er jafnframt að finna mikilvægar upplýsingar um verkefnið og hvers þarf að gæta þegar strandhreinsunarverkefni eru skipulögð. Þar er meðal annars gátlisti fyrir þá sem vilja skipuleggja strandhreinsun og upplýsingar um fuglavarp á vorin og sumrin.
Margir halda því fram að Ísland sé hreinasta land í heimi. Vissulega er loftið hreint og vatnið gott en þrátt fyrir það notar hver Íslendingur að meðaltali 40 kíló af plastumbúðum á ári. Árlega eru 300 milljón tonn af plasti framleidd í heimum, sem má ímynda sér í formi sömu tölu af fílum. Aðeins lítill hluti skilar sér til endurvinnslu eða endurnýtingar og er meiri hluti þess annaðhvort grafinn í jörðu eða endar í hafinu, en talið er að um 5 milljón tonn af plasti endi í sjónum á hverju ári. Hér áður fyrr var oft sagt „lengi tekur sjórinn við“ en nú er jafnvel talið að það verði meira af plasti en fiski í sjónum árið 2050.