Framfarafélag Flateyjar sendi á dögunum áskorun til Samgönguráðherra, sveitarstjórnar Reykhólahrepps og Vegagerðarinnar um að vinna að endurbótum á ferjubryggjunni í Flatey á Breiðafirði. Í bókun á aðalfundi Framfarafélagsins kemur fram að ástand ferjubryggjunnar í Flatey hafi mikið versnað og hluti hennar stórskemmdur. Álag á bryggjuna og aðra innviði eyjunnar hefur stóraukist með auknum ferðamannastraum og nú er svo komið að skipstjórar ferjunnar treysta sér ekki til að leggja að við ákveðin veðurskilyrði, þá falla niður farþegaflutningar og póstsamgöngur. Á ályktuninni kemur ennfremur fram að verið sé að leggja líf og limi fólks í hættu meðan ástand bryggjunnar er með þessum hætti.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps tók áskorun Framfarafélagsins fyrir á fundi sínum í byrjun apríl og í bókun hennar kemur fram að Reykhólahreppur hafi ekki rekið Flateyjarhöfn svo áratugum skipti heldur hefur hún alfarið verið rekin af siglingasviði Vegagerðarinnar, áður Siglingastofnun.
Sveitarstjóra Reykhólahrepps var falið að útbúa yfirlýsingu til Innanríkisráðuneytis þess efnis að sveitarfélagið sé reiðubúið að afsala sér formlega öllum hafnarmannvirkjum í Flatey og rekstri hafnarinnar til Vegagerðarinnar.
Hér má nálgast ályktun Framfarafélags Flateyjar (FFF)
bryndis@bb.is