Fossavatnsgangan elsta og fjölmennasta skíðamót landsins fer fram um helgina á Ísafirði. Nú eru 950 þátttakendur skráðir til leiks frá 25 löndum. Það stefnir því í met skráningu en gera má ráð fyrir að um 1100 manns muni taka þátt.
Mikil uppgangur hefur verið í skíðagöngu á Íslandi en um helmingur þátttakenda er frá Íslandi eða rúmlega 500 manns. Næst flestir keppendur koma frá Noregi 132 manns en 88 eru frá Bandaríkjunum.
Lang stærsta stjarna skíðagöngunnar á heimsvísu Norðmaðurinn Petter Northug jr. er á meðal keppenda en hann hefur um árabil sópað að sér verðlaunum á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum. Telja má víst að í dag sé hann stærsta íþróttastjarna Noregs enda á hann litríkan feril að baki. Caitlinn Gregg frá Bandaríkjunum sem unnið hefur til verðlauna á Heimeistaramóti og Britta Johanson Nordgren fremsta skíðagöngukona heims í lengri vegalengdum verða einnig á meðal keppenda. Þrátt fyrir að þessar stjörnur séu með eru flestir keppendur að gera sér þetta til gamans og keppa við sjálfan sig og ljúka þessari miklu þrekraun.
Fossavatnsgangan hefur verið haldin á Ísafirði frá árinu 1935. Eftir að gangan var tekin inn í Worldloppet mótaröðina hefur keppendum fjölgað gífurlega. Ísafjörður iðar af lífi þessa dagana sem gangan fer fram en á fimmtudagskvöldi er keppt í 25 km göngu með frjálsri aðferð og Fjölskyldufossavatninu sem er 1 og 5 km. Á laugardeginum er svo keppt í 50 km, 25 km og 12,5 km göngu. Þannig ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Veðurspáin er mjög góð og nóg er af snjó þannig að aðstæður ættu að verða með besta móti.
Nánari upplýsingar um gönguna má nálgast á vefsíðu hennar fossavatn.com