Vildi kyngja upphæðinni í skiptum fyrir betri vinnubrögð

Ætlaði að bæta málið, segir Daníel.

„Ég setti þessa tillögu fram til að bjarga því sem bjargað varð,“ segir Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, um breytingartillögu við samning Ísafjarðarbæjar við Hestamannafélagið Hendingu. Daníel lagði tillöguna fram á fundi bæjarstjórnar fyrir helgi og þegar til atkvæðagreiðslu kom um tillöguna sat Daníel hjá.

„Ég var að reyna að búa til leið fyrir Í-listann að bæta málið en það kom fljótlega í ljós að Í-listinn vildi ekki styðja breytingarnar og því sat ég hjá,“ segir Daníel sem hefur talað eindregið gegn samningnum og finnst hann meðal annars vera allt of dýr. „Ég hefði verið til í að kyngja upphæðinni í skiptum fyrir betri vinnubrögð.“ Samflokksmenn hans í Sjálfstæðisflokknum studdu breytingartillöguna auk bæjarfulltrúa Framsóknarflokks. Tillagan var felld með atkvæðum Í-listans.

Ísafjarðarbær lætur í té 30 milljónir kr. til að reisa reiðskemmu í Engidal og til viðbótar koma 20 milljóna kr. bætur frá Vegagerðinni fyrir aðstöðumissi Hendingar á Búðartúni í Hnífsdal.

„Þetta er allt of opinn samningur og of margt sem er óljóst,“ segir Daníel. Ísafjarðarbær og Hending ætla að stofna með sér einkahlutafélag um byggingu reiðskemmunnar. „Það er ekki búið að ákveða hvernig hús á að byggja. Engin þarfagreining liggur fyrir og hvað þá skilalýsing. Það liggur ekki fyrir hvernig það á að koma sjálfboðavinnu hestamanna inn í einkahlutafélag því hún er skattskyld. Verður stofnuð byggingarnefnd eða mun stjórn einkahlutafélagsins ráða för er annað sem vekur upp spurningar. Ég óttast að bærinn sé að skrifa upp á óútfylltan tékka,“ segir Daníel.

smari@bb.is

 

DEILA