Í Kastljósi kvöldsins á RÚV mun verða rætt við Guðmund Halldórsson skipstjóra um veru Halldóru dóttur hans á vistheimilinu Bræðratungu á Ísafirði. Halldóra sem er með Downs heilkennið dvaldi þar um árabil og segir Guðmundur að hún hafi þar verið beitt ofbeldi og þvingunum.
Vistheimilinu Bræðratungu var lokað haustið 2004 en hafði þá verið í rekstri í um 20 ár. Áherslur í umönnun og aðbúnaði fatlaðra hafði þá breyst og færst frá því að safna fötluðum saman á einn stað, oft í sparnaðarskyni, yfir í að gera þeim kleift að lifa sjálfstætt og innan um annað fólk.
Frá því að meðferð á drengjunum sem vistaðir voru í Breiðuvík komst í hámæli hefur hver stofnunin á fætur annarri sætt rannsókn, nú síðast Kópavogshæli þar sem upplýst hefur verið um gróft ofbeldi.
Haft var eftir Jóni Þorsteini Sigurðssyni, réttargæslumanni fatlaðra á Vesturlandi og Vestfjörðum, í blaðinu Vestfirðir á dögunum að hann hefði fengið fjölda ábendinga um illa meðferð fatlaðra einstaklinga á Bræðratungu. Jón segist hafa fengið nákvæmar lýsingar sem bendi til þess að íbúar hafi verið beittir nauðung, þvingunum og refsingum. Hann telur eðlilegt að rekstur Bræðratungu verði rannsakaður og hafi eitthvað misjafnt átt sér stað eigi vistmenn Bræðratungu rétt á sanngirnisbótum, rétt eins og íbúar á Kópavogshæli.
bryndis@bb.is