Töfraflautan sýnd á Ísafirði

Nemendaópera Söngskólans í Reykjavík flytur Töfraflautu Mozarts í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þann 7. apríl næstkomandi. Óperan verður flutt í íslenskri þýðingu og er í bæði töluðum texta og sungnum. Uppfærsla Söngskólans er barnvæn og gerð þannig að sem flestir geti notið hennar. Á sýningunni koma fram hátt í 50 söngvarar, sem allir eru nemendur við Söngskólann og mun nemendaóperan í uppsetningunni á Ísafirði njóta samvinnu við karlakórinn Erni og Sunnukórinn. Einnig fá þau til liðs við sig heimamanninn og bassasöngvarann Aron Otto Jóhannsson.

Í Töfraflautunni er sögð saga prinsins Tamino sem er týndur og hvernig fyrir honum birtast allra handa verur góðs og ills. Sagan fjallar um þrautir og erjur Taminos er hann reynir að ná ástum Paminu sem er dóttir Næturdrottningarinnar, sem ekki er auðvelt verk.

Leikstjóri Töfraflautunnar er Sibylle Köll, stjórnandi söngs er Garðar Cortes og á píanó leikur Hrönn Þráinsdóttir. Sýnt verður í Edinborgarsal og hefst sýningin sem er um þriggja klukkustunda löng klukkan 19:30. Miðar eru seldir á við inngang og á midi.is

annska@bb.is

DEILA