Stórauka stuðning við Safetravel

Öryggismál ferðamanna hafa verið í brennidepli síðustu misseri.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, og Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, skrifuðu í gær undir samstarfssamning við Slysavarnafélagið Landsbjörg sem felur í sér stóraukinn stuðning við verkefnið Safetravel. Samningurinn er til þriggja ára og hljóðar upp á 35 milljónir króna á ári, til viðbótar við framlag Slysavarnafélagsins Landsbjargar í formi fjármuna og vinnu af hálfu sjálfboðaliða félagsins.  Ráðuneyti ferðamála leggur fram 25 milljónir króna á ári en lagði til samanburðar fram 16 milljónir á liðnu ári. Samtök ferðaþjónustunnar auka sitt framlag úr 6 milljónum árið 2016 í 10 milljónir á ári. Auk þess styður Icelandair Group verkefnið myndarlega.

Samningurinn markar tímamót og skapar forsendur til að auka verulega við Safetravel verkefnið sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir varðandi slysavarnir og öryggismál ferðamanna og hefur félagið þó unnið mikið og gott starf á þessu sviði um árabil. Verkefni sem stefnt er að því að efla á grundvelli þessa samnings eru meðal annars: Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar, skjáupplýsingakerfi ferðamanna og  vefurinn Safetravel.is, m.a. með þýðingu á akstursefni vefsins á kínversku.

smari@bb.is

DEILA