Álag og fjölgun slysa hjá lögreglu var umfjöllunarefni sameiginlegrar ráðstefnu Vinnueftirlitsins, Ríkislögreglustjóra, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Landssambands lögreglumanna og dómsmálaráðuneytisins sem haldin var á miðvikudag og greint var frá í Morgunblaðinu. Fram kom í erindi Guðmundar Kjerúlf frá Vinnueftirlitinu að á árunum 2005 til 2009 hefðu starfað tæplega700 lögreglumenn á Íslandi, en þeir hefðu verið um 650 á árunum 2010 til 2015. Færa mætti rök fyrir því að álag á lögregluna hefði aukist síðustu ár m.a. vegna þess að ferðamönnum hefði fjölgað mikið. Þeir hefðu verið innan við 400 þúsund árið 2005 en tæplega 1,8 milljónir í fyrra.
Á árunum fyrir hrun hefði verið algengast að starfsfólk í byggingariðnaði og fiskvinnslu slasaðist. Á árunum eftir hrun væri hins vegar algengast að lögreglumenn slösuðust. Um það bil sjötti hver lögreglumaður yrði fyrir tilkynningarskyldu vinnuslysi árlega en tuttugasti og fimmti hver starfsmaður í fiskvinnslu og áttugasti hver í byggingarvinnu.
smari@bb.is