Illvíg flensa hefur herjað á Vestfirðinga sem og aðra landsmenn upp á síðkastið og hefur hún lagt óvenju marga í bólið. Hár hiti fylgir flensunni sem byrjar oft með höfuðkvölum og fylgja henni svo beinverkir og kvef í flestum tilfella þó eitthvað sé um ólík blæbrigði. Þeir sem grípa pestina liggja í flestum tilfellum lengi eða um vikutíma. Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, segir að flensan í ár sé skæð og við bætist að virkni bóluefnisins við inflúensu sem margir nýta sér er minni en oft áður. Hann segir bóluefnið þó draga úr einkennum og bjarga þannig því sem bjargað verður.
Talsvert hefur verið um innlagnir á sjúkrahúsið vegna flensunnar og fylgikvilla hennar og þá hafa aðrar pestir verið í gagni í bland sem hefur valdið auknu álagi. Flensan fer ekki í manngreinaálit og hefur starfsfólk HVest einnig fengið að kenna á henni og sama á við um kennara við Grunnskólann á Ísafirði en þar hafa sjaldan sést önnur eins forföll vegna veikinda og nú. Leggst flensan bæði á nemendur og starfsfólk skólans, en sérstaklega slæm hefur hún verið meðal nemenda í 1.-6.bekk.
Á föstudag í síðustu viku voru til að mynda rúmlega 60 nemendur veikir af þeim 340 sem stunda nám við skólann. Í dag eru 45 nemendur fjarverandi vegna veikinda og segir Henný Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur við skólann að það sé engu líkara en þessi flensa ætli bara að fella alla, en hún segist þó vonast til að toppnum sé náð, þó fólk sé enn að veikjast.