Öskudagur í dag

Öskupokar. Mynd: Klæðakot

Öskudagur er í dag. Nafn hans má finna í handritum frá 14. öld, en þó má ætla að það sé eldra og er hann fyrsti dagur lönguföstu og hefur hann lengi verið mikilvægur í kaþólska kirkjuárinu. Nafnið er dregið af þeim sið að ösku af brenndum pálmagreinum frá árinu áður var dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta, til að minna þá á forgengileikann og hreinsa þá af syndum sínum, en askan var talin búa yfir heilnæmum hreinsunarmætti. Það er kannski minna um hádramatískan hátíðleika á öskudegi Íslands í dag og hafa seinni tíma siðir falið í sér öllu meira fjör.

Vinsælt var á árum áður að hengja öskupoka aftan í fólk og var þá helsta trixið að gera það án þess að viðkomandi tæki eftir. Líklega var góð lukka fólgin í öskunni svipað og í kaþólskunni, og var henni haganlega komið fyrir í skrautlegum heimasaumuðum pokum. Eftir að aska hætti að vera aðgengileg á heimilum landsins var henni bara sleppt, en áfram saumaðir skrautlegir pokar, sem voru þannig útbúnir að í þá var hengdur spotti, oft úr tvinna, sem í var festur títuprjónn sem var hitaður yfir eldi og beygður til svo auðveldara reyndist að hengja hann aftan í fólk. Það má segja að þessi ágæti siður, sem telst ekki til tökusiða heldur er talinn eiga rætur sínar hér á landi, hafi nánast dáið út er farið var að framleiða títuprjóna sem ekki beygðust, sem gerði verknaðinn nánast ómögulegan.

Víða um landið er mikið fjör á öskudag þar sem börnin klæða sig upp í búninga og ganga í verslanir og fyrirtæki sérstaklega og fá sælgæti að launum fyrir söng. Þá eru oft grímuböll og kötturinn sleginn úr tunnunni, þar sem sælgætisfyllt fígúra er hengd í loftið og slegin með priki eða öðru barefli þar til hún gefur sig og sælgætið streymir út.

annska@bb.is

DEILA