Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa á því þegar Jóni Hákoni BA hvolfdi gerir nefndin þá tillögu til innanríkisráðuneytisins að það verði afdráttarlaust gert refsivert að ofhlaða fiskiskip og eftirlit með því tryggt. Einnig að siglingalögum verði breytt þannig að eigendum og vátryggingafélögum fiskiskipa verði gert skylt að taka upp flök skipa sem sökkva nema sýnt sé fram á að slíkt sé ógerlegt.
Dragnótarbátnum Jóni Hákoni BA 60 hvolfdi að morgni 7. júlí 2014 þar sem hann var að veiðum út af Aðalvík. Fjórir menn voru um borð og drukknaði einn þeirra, en hinum var bjargað um borð í nærstaddan bát, Mardísi ÍS. Rannsóknarnefndin telur orsök slyssins vera þá að skipið var ofhlaðið og með viðvarandi stjórnborðshalla. Þetta leiddi til þess að í veltingi átti sjór greiða leið inn á þilfar skipsins bæði yfir lunningu og um lensport. Vegna óþéttleika á lestarlúgukarmi bættist stöðugt sjór í lestina. Varð þetta til þess að skipið missti stöðugleika og því hvolfdi þegar öldutoppur rann óhindrað yfir lunningu þess.
smari@bb.is