Missti troðarann í krapapoll

Mannleg mistök urðu til þess að nýkeyptur troðari skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar hafnaði í krapapolli á Seljalandsdal. Jarðýtu og beltavél þurfti til að losa hann. Óhappið gerðist á Seljalandsdal um kvöldmatarleytið á miðvikudagskvöld. „Aftari hlutinn á troðaranum fór á kaf. Við vorum alla nóttina og fram undir hádegi í gær að losa hann og þá tók við að draga hann niður eftir. Troðarinn var kominn í hús um miðnætti í gær,“ segir Hlynur Kristinsson, forstöðumaður skíðasvæðisins.

Ekki er búið að meta skemmdir á troðaranum. „Viðkvæmur vél- og rafmagnsbúnaður lá í vatni og við ræsum ekki troðarann fyrr en við erum búnir að fara yfir allt þannig að við vitum ekki enn um tjón,“ segir Hlynur.

Annað sem er í vinnslu að sögn Hlyns er hvort tryggingar dekki óhappið.

Troðarinn var keyptur í haust og kostaði 37 milljónir kr.

DEILA