Leita að meiri fjármunum til vegamála

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

 

Á ríkisstjórnarfundi fyrir helgi var Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra og Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra falið að leita leiða svo veita megi til vegamála meiri fjármuni en nú eru fyrir hendi. Tíu milljarða króna vantar upp á til að samræmi sé á milli fyrirhugaðra verkefna á samgönguáætlun og fjárlaga þessa árs. Samgönguráðherra sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðisins að málin skýrist vonandi í þessari viku. Þær framkvæmdir sem Jón telur mikilvægt að fara af stað með í ár eru til dæmis Teigsskógur og endurbætur á vegunum um Uxahryggi, Kjósarskarð, Skógarströnd á norðanverðu Snæfellsnesi og Dettifossvegur. Ekki megi heldur bíða að fara í vegabætur innst í Berufjarðarbotni, en íbúar hafa staðið fyrir táknræmum mótmælum vegna ákvörðunar samgönguráðherra að fresta framkvæmdum á veginum.

Sveitarstjórnir, landshlutasamtök og hagsmunasamtök hafa ályktað og mótmælt þessari stöðu sem er komin upp í samgöngumálum. Í Morgunblaðinu segist Jón skilja þessa gremju mjög vel. Hann treystir sér ekki til að segja hversu mikla fjármuni hann getist vænst til samgöngumála. „Mestu skiptir þó að geta koma verkefnum af stað og svo gildir bara það gamla góða, að hálfnað er verk þá hafið er,“ er haft eftir Jóni í Morgunblaðinu.

DEILA