Kólnar á morgun

Það verður stinningsgola eða kaldi á Vestfjörðum í dag, vindar blása úr suðvestri 5-10 m/s og það verða skúrir eða slydduél fram yfir hádegið en þurrt að kalla eftir það. Vindur snýr sér og má búast við norðaustan 8-13 m/s og éljum í kvöld, en suðvestlægari átt á morgun. Hiti verður 1 til 4 stig í dag, en um og undir frostmarki á morgun.

Á vef Veðurstofu Íslands er varað við stormi syðst á landinu í nótt, en lægð nálgast landið úr suðvestri í dag með stífri austanátt og slyddu eða rigningu sunnan- og vestanlands síðdegis, en snjókomu norðantil í kvöld. Lægðin fer norðaustur yfir landið í nótt með allhvassri norðvestanátt og éljum. Fremur milt verður í veðri á landinu í dag, en kólnar á morgun. Víða frost annað kvöld.

Hálka eða hálkublettir eru á sumum fjallvegum á Vestfjörðum en víðast er greiðfært á láglendi. Snjóþekja og éljagangur er á Klettshálsi.

annska@bb.is

DEILA