KK á Vagninum um páskana

Kristján Kristjánsson eða KK mun troða upp á Vagninum um páskana og er það ekki í fyrsta sinn sem þessi ástsæli og viðkunnanlegi tónlistarmaður heiðrar Flateyringa með nærveru sinni og list. Í frétt á bb.is árið 2012 er fjallað um tengsl Kristjáns við Flateyri og þar er eftirfarandi haft eftir honum „Ég var nýfluttur heim frá Svíþjóð, byrjaður að koma fram og það æxlaðist þannig að ég og KK-Bandið spiluðum mikið á Flateyri. Bærinn varð í raun okkar annað heimili. Við ákváðum að halda útgáfutónleikana á Vagninum, hjá vertinum Guðbjarti Jónssyni, og úr varð heilmikið partí. Við leigðum litla flugvél, buðum fjölmiðlafólki á staðinn og þetta var allt mjög skemmtilegt.“

Lagið „ I think of angels“ samdi Kristján á loftinu á Vagninum árið 1992 og fjallar textinn um systur hans, Inger, sem lést í bílslysi fyrr á því ári. Kristján lýsir tilurð lagsins svona í viðtali við Vísi í desember 2015 „Ég var staddur uppi á lofti á Vagninum á Flateyri og fer að strömma þetta á gítarinn. Ég næ bara sambandi og sit þarna með tárin og er að tala við Inger í fyrsta skipti eftir að hún dó. Allt í einu bankar sorgin upp á. Eftir allan þennan tíma. Rétt áður en ég á að fara inn á sviðið. Allir sýndu þessu skilning og ég fékk að jafna mig áður en ég fór á svið. Ég gaf ekki út lagið fyrr en tveimur árum seinna og þá söng Ellen það. Það hefur síðan verið sungið margoft í jarðarförum og ég er svo ánægður að lagið hennar Inger hafi orðið svo mörgum öðrum huggun.“

Síðast spilaði Kristján á Flateyri þann 26. október 2015, þegar Flateyringar komu saman, minntust þeirra sem fórust í snjóflóðinu árið 1995 og glöddust með þeim sem lifðu.

bryndis@bb.is

DEILA