Kerecis sækir um þrjár lóðir

Lækningavörufyrirtækið Kerecis hf. hefur sótt um þrjár lóðir á Suðurtanga á Ísafirði. Lóðirnar eru við Æðartanga 6, 8 og 10, en Æðartangi eru gata í nýlegu deiliskipulagi á Suðurtanga. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis, segir að ekki hafi verið tekið endanleg ákvörðun um húsbyggingar. „Lóðirnar eru veittar með skilyrðum sem við eigum eftir að fara yfir og athuga hvort að eru ásættanlegar,“ segir Guðmundur. Starfsemi Kerecis á Ísafirði er í Íshúsinu. Verði af húsbyggingu á Suðurtanga verður húsnæðið í stað þess sem fyrirtækið er með í Íshúsinu, en Guðmundur segir að nokkuð sé farið að þrengjast um Kerecis með meiri umsvifum í húsinu tengdu fiskeldi.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur mælt með við bæjarstjórn að fyrirtækið fái lóðirnar. Lóaúthlutunin fellur úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 6 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.

smari@bb.is

DEILA