Kæru vegna slysasleppingar vísað frá

Kæru frá Landssambandi veiðifélaga, þar sem farið var fram á rannsókn á því hvort lög um fiskeldi hafi verið brotin í ljósi fjölda regnbogasilungs í ám á Vestfjörðum, hefur verið vísað frá lögreglurannsókn. Frá þessu er greint á vef RÚV. Kærunni var vísað frá meðal annars vegna þess að eftirlitsaðilar laganna, Matvælastofnun og Fiskistofa, hafa meintar sleppingar til rannsóknar.

Í kærunni vísaði Landssambandið til þess að samkvæmt lögum ber að tilkynna slysasleppingar án tafar til Fiskistofu en engin slík tilkynning barst og taldi sambandið óhugsandi að fiskur sleppi úr sjókvíum í þeim mæli sem vísbendingar eru um án vitundar rekstrarleyfishafa.

Fyrir skemmstu tilkynnti Arctic Sea Farm um talsverða slysasleppingu í Dýrafirði eftir að gat fannst á botni einnar kvíar fyrirtækisins. Var í fyrstu talið að regnbogasilungurinn sem veiddist í ám víða á Vestfjörðum hefði sloppið úr þessari kví. Við rannsókn útilokaði Matvælastofnun að um sama fiskinn sé að ræða, vegna mismunar á stærð  sem veiddist í ánum og þess sem var í kvínni.

smari@bb.is

DEILA