Jakob Valgeir með þriðja stærsta krókakvótann

Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík ræður yfir þriðja mesta krókakvótanum á landinu samkvæmt nýjum tölum frá Fiskistofu. Aflahlutdeild Jakobs Valgeirs er 4,13% eða rúmlega 1.800 tonn. Salting ehf., sem gerir út línubátinn Fríðu Dagmar ÍS frá Bolungarvík ræður yfir 4,11% af krókakvótanum, eða tæplega 1.800 tonn sem gerir útgerðina þá fjórðu kvótahæstu. Þórsberg ehf. á Tálknafirði sem gerir út Indriða Kristjáns BA er í níunda sæti listans, en aflahlutdeild fyrirtækisins er 2,9%, eða tæp 1.300 tonn. Bolvíska útgerðin Blakknes ehf. sem gerir út Einar Hálfdáns ÍS er í 12. sæti listans með 2,25% aflahlutdeild, eða tæp 1.000 þorskígildistonn.

Þegar skoðuð er krókaaflahlutdeild útgerða þá eru þar nokkrar breytingar á stærstu útgerðunum. Hjálmar ehf. á Fáskrúðsfirði er stærst með 4,3% hlutdeilda og síðan Grunnur ehf. í Hafnarfirði og Jakob Valgeir í Bolungarvík með um 4,1% hvor útgerð. Stakkavík í Grindavík sem verið hefur stærst í krókaaflahlutdeildum mörg undanfarin ár er nú 6. sæti á listanum,

Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.

smari@bb.is

DEILA