Á sunnudag verður harmonikkuball í Edinborgarhúsinu. Ballið er upp á gamla mátann, þar sem dansað er um miðjan dag og boðið upp á dýrindis kaffiveitingar í hléi. Rauði krossinn á Vestfjörðum stendur fyrir dansleiknum í samstarfi við Menningarmiðstöðina Edinborg og eru það sjálfboðaliðar sem leggja til vinnu sína við undirbúning og framkvæmd. Hafa eldri borgarar verið liðtækir í sjálfboðaliðahópnum og segir Bryndís Friðgeirsdóttir verkefnastjóri hjá Rauða krossinum að án þeirra væri auðvitað ekkert harmonikkuball, sem hún segir alls ekki mega vanta í skemmtanaflóruna á Ísafirði.
Harmonikkuböllin hafa nú verið haldin í áraraðir með dúndrandi fjöri. Að þessu sinni er það Stefán Jónsson sem leikur fyrir dansi og er frítt inn. Bryndís hvetur fólk á öllum aldri til að skella sér á ball og fá sér snúning á sunnudaginn milli kl. 14 og 16.