Verkalýðsfélag Vestfirðinga leggur sérstaka áherslu á að tengja norður- og suðursvæði Vestfjarða í einni framkvæmd með jarðgöngum og vegabótum. Í ályktun stjórnar félagsins kemur fram að á meðan ástand vegamála á svæðinu er svo dapurlegt sem raun ber vitni, sé einfaldlega ekki hægt að bjóða íbúum og atvinnulífi á suðurfjörðum Vestfjarða upp á að standa í eðlilegri samkeppni við aðra landshluta vegna vanþróaðra samgangna. „Í þeim efnum eru vestfirskir vegir mörgum áratugum á eftir í uppbyggingu og þróun. Verkalýðsfélag Vestfirðinga ítrekar að bættar samgöngur eru ein af undirstöðunum þess að tryggja og viðhalda byggð á Vestfjörðum,“ segir í ályktuninni og enn fremur að krafa Vestfirðinga sé skýr:
„Góðar samgöngur eru lífæð hverrar byggðar, bæði hvað varðar atvinnu og menningu, sem og öryggi og þróun byggðar. Vegir á Vestfjörðum standast ekki þær kröfur sem gerðar eru til nútíma þjóðvega og uppfylltar hafa verið hjá öðrum. Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga skorar á samgönguráðherra og þingmenn kjördæmisins að tafarlaust verði ráðist í gerð heilsárs vegbóta við alla þéttbýlisstaði á Vestfjörðum.“
smari@bb.is