Fimm skólar taka þátt í söfnun ABC barnahjálpar

Skóli ABC barnahjálpar í Búrkína Fasó.

Árleg söfnun ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, hófst formlega dag þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setti söfnunina af stað frá Áslandsskóla í Hafnarfirði. Söfnunin er í samstarfi við grunnskóla landsins og frá upphafi hafa nemendur um land allt safnað rúmlega 120 milljónum króna til styrktar fátækum börnum í fjarlægum löndum. Söfnunin fer þannig fram að börnum er úthlutað götum í sínu hverfi þar sem þau ganga í hús tvö og tvö saman og safna í söfnunarbauka. Söfnunarfénu verður ráðstafað til að styrkja innviði skólastarfs ABC í Afríku og Asíu.

Fimm grunnskólar á Vestfjörðum taka þátt í söfnuninni að þessu sinni. Þeir eru eru Auðarskóli, Grunnskólinn á Suðureyri, Patreksskóli, Bíldudalsskóli og Tálknafjarðarskóli.

Þetta er í 20 skiptið sem söfnunin er haldin. Í söfnuninni í fyrra söfnuðust tæpar 8 milljónir króna og fóru m.a. í uppbyggingu heimavistar í Pakistan, efnafræðistofu í ABC skólanum í Nairobi í Kenýa og til uppbyggingar heimavistar í ABC skólanum í Namelok í Kenýa.

smari@bb.is

DEILA