Ferja skíðamenn upp í Miðfell

Ísfirskir skíðamenn hafa reytt hár sitt í allan vetur og skyldi engan undra í þessu fádæma snjóleysi sem hefur herjað á skíðasvæðið. Ákvörðun starfsmanna skíðasvæðisins á Ísafirði að hafa opið í Miðfellslyftu í dag og líklega um helgina líka, ætti að slá á allra mestu fráhvörfin. „Troðarinn mun ferja fólk frá Tungudal og upp í Miðfell þar sem bakki 2, 4, og 4 verða opnir. Það er ekki nægur snjór til að hafa opið í Tungudal og því verðum við að ferja fólk upp,“ segir Hlynur Kristinsson, forstöðumaður skíðavsæðisins. Skíðasvæðið verður opið í dag frá kl. 14 til kl. 19 og á morgun frá kl. 10 og fram eftir degi. Nánari upplýsingar eru á Facebook síðu skíðasvæðisins.

 

Starfsmenn skíðasvæðisins eru í óða önn að koma nýja troðara svæðisins saman eftir að hann hafnaði í krapapolli í síðustu viku. Að sögn Hlyns var tjónið ekki eins mikið og menn óttuðust. „Við þorðum ekki öðru en að skipta út aðaltölvunni og svo skiptum við út nokkrum skynjurum svo þetta er nokkuð vel sloppið. Sjálft tjónið er upp á sex til sjöhundruð þúsund krónur.

DEILA