Velta fataverslana var 12,4 prósentum minni í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Á því tólf mánaða tímabili lækkaði aftur á móti verð á fötum um 7,3 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Í henni segir að velta í dagvöruverslun hafi aukist jafnt og þétt í febrúar og verið þremur prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Velta áfengisverslunar jókst þá einnig eða um átta prósent. „Þess ber að geta að fataverslunum hér á landi hefur farið fækkandi frá áramótum, en það er mikilvægur hluti skýringarinnar,“ segir í tilkynningunni og þar tekið fram að skóverslun jókst um 23,7 prósent í febrúar.
smari@bb.is