Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur ætla í opinbera heimsókn til Færeyja aðra vikuna í maí. Í ferðinni verður afhent gjöf frá frá sveitarfélögunum sem þakklætisvott fyrir hlýhug færeysku þjóðarinnar fyrir rúmum 20 árum í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík og Flateyri. Eftir að snjóflóðin féllu stóðu Færeyingar fyrir fjársöfnun sem skilaði meiru en Íslendingar söfnuðu sjálfir, sé miðað við höfðatölu. Í dag standa meðal annars tveir leikskólar á Flateyri og í Súðavík sem reistir voru fyrir söfnunarfé Færeyinga. Gjöfin er minnisvarði eftir ísfirska listamanninn Jón Sigurpálsson og verður hann reistur í Þórshöfn, höfuðstað Færeyja.
Í heimsókninni ætla bæjarfulltrúar í Ísafjarðarbæ að kynna sér laxeldi í Færeyjum sem er í dag ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar. „Við getum lært mikið af reynslu Færeyinga af laxeldi og við förum í þessa heimsókn svo við getum verið betur í stakk búin fyrir það sem er í vændum hér á næstu árum. Það er ljóst að sveitarfélögin þurfa að vera vel undirbúin,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
smari@bb.is