Í gær lauk fyrstu keppni á Skíðamóti Íslands á Akureyri þegar keppt var í sprettgöngu. Fyrst fóru allir keppendur í tímatöku og eftir það var raðað í undanúrslit og að lokum voru úrslit. Í loka úrslitum kvenna kepptu fjórar konur til úrslita og á endanum sigraði Elsa Guðrún Jónsdóttir nokkuð örugglega. Í öðru sæti var Kristrún Guðnadóttir, Veronika Lagun hafnaði í þriðja sæti og Ísfirðingurinn Anna María Daníelsdóttir í fjórða sæti.
Hjá körlunum voru fimm keppendur í lokaúrslitum. Keppnin var mjög jöfn en um miðja göngu náði Isak Stiansson Pedersen nokkuð þægilegri forystu sem hann lét ekki af hendi. Í öðru sæti var Sturla Björn Einarsson og Sigurður Arnar Hannesson hafnaði í þriðja sæti, efstur af fjórum keppendum frá Skíðafélagi Ísfirðinga.
Í dag verður keppt í göngu með frjálsri aðferð og í alpagreinunum verður keppt í stórsvigi.
Smári