Chorus Tenebris syngur hjá kórstjórnendum framtíðarinnar

Chorus Tenebris verður með tónleika í Ísafjarðarkirkju í kvöld. Kórinn var stofnaður síðasta vetur er samstarf hófst milli Tónlistarskóla Þjóðkirkjunnar og Tónlistarskóla Ísafjarðar. Beata Joó, píanókennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar og kórstjóri frá Franz Liszt akademíunni í Búdapest kennir kórstjórnina við TÍ og hafa fimm nemendur stundað námið í vetur. Chorus Tenebris er því enn í fullri virkni er upprennandi kórstjórarnir fimm fá að spreyta sig reglulega á kórnum, sem skipaður er einvalaliði söngvara. Það eru þau Aron Ottó Jóhannsson, Dagný Arnalds, Pétur Ernir Svavarsson, Sigrún Pálmadóttir og Tuuli Rähni sem nú stunda námið hér og má segja að tónleikarnir í kvöld séu einskonar generalprufa, en próf kórstjórnarnemanna fara fram á morgun.

Í tilkynningu T.Í. um tónleikana segir að samstarf skólanna tveggja hafi verið með miklum ágætum og sýnt fram á að samstarf við tónlistarskóla í öðrum landshlutum er vel framkvæmanlegt sé viljinn fyrir hendi.

Chorus Tenebris syngur 10 lög á tónleikunum sem verða sem áður segir í kvöld í Ísafjarðarkirkju, þeir hefjast klukkan 20 og standa yfir í um það bil 40 mínútur. Lögin eru öll vel þekktar perlur frá miðöldum til okkar tíma. Allir eru velkomnir á tónleikana og er aðgangur ókeypis.

annska@bb.is

DEILA