Burðarþolsmat Ísafjarðardjúps 30 þúsund tonn

Mynd: Ómar Smári Kristinsson.

Hafrannsóknastofnun hefur birt mat á burðarþoli Ísafjarðardjúps með tilliti til sjókvíaeldis og er niðurstaða matsins að hámark lífmassa fiskeldis í Ísafjarðardjúpi verði 30 þúsund tonn. og er það meiri lífmassi en þegar hefur verið sótt um leyfi fyrir vegna fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Við gerð burðarþolsmats er einkum er horft til álags á lífríki sjávarbotnsins, súrefnisstyrk og styrk næringarefna í sjó. Þá er tekið tillit til stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk.

Á vef Hafrannsóknastofnunar kemur fram að við breytingu á lögum um fiskeldi árið 2014 voru sett inn ný ákvæði um að rekstrarleyfi skuli fylgja burðarþolsmat sem framkvæmt sé af Hafrannsóknastofnun.

Vegna aðstæðna í Ísafjarðardjúpi og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif áætlaðs eldis á vatnsgæði og botndýralíf, telur Hafrannsóknastofnun að hægt sé að leyfa allt að 30 þúsund tonna lífmassa í eldi í Ísafjarðardjúpi á hverjum tíma. Í þessu mati er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í Ísafjarðardjúpi verði aldrei meiri en 30 þúsund tonn og að vöktun á áhrifum eldisins fari fram. Slík vöktun yrði forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt yrði á raungögnum.

Hafrannsóknastofnun tekur fram að endanleg burðarþolsmörk fyrir ákveðna firði eða svæði verða seint gefin út enda hefur slíkt varla verið gert í nágrannalöndunum, heldur er alltaf tekið með í reikninginn hvaða staðsetningar og hvers konar eldi er um að ræða og fara umhverfisáhrifin eftir báðum þessum þáttum.

Því má búast við að burðarþol fjarða og annarra eldissvæða verði endurmetið á næstu árum ef þörf krefur.

DEILA