Búðin í Súðavík sett á sölu

Búðin er í Álftaveri, þjónustumiðstöð Súðavíkur.
Fjármagnstekjur í Súðavík eru nálægt landsmeðaltalinu.

 

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur ákveðið að auglýsa matvöruverslunina í Súðavík til sölu. „Við ætlum að kanna hvort það er einhver áhugi á að kaupa búðina. Það er eðlilegt þegar svona rekstur er í opinberri eigu að það sé skoðað reglulega hvort að einkaaðili sé tilbúinn að taka við keflinu,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Sveitarfélagið opnaði verslunina fyrir tæpum tveimur árum eftir að hreppurinn hafði verið verslunarlaus um nokkurra missera skeið.

Pétur segir að ákvörðun sveitarstjórnar um að auglýsa búðina til sölu sé í takt við það sem ákveðið var í upphafi þegar stofnað var til rekstursins. „Búðin rekur sig ágætlega þannig að þetta gæti verið fínt tækifæri fyrir einstaklinga sérstaklega í ljósi þess að ferðaþjónusta er alltaf að verða stærri atvinnugrein á svæðinu og í svona fyrirtæki leynast miklir möguleikar tengdir ferðaþjónustu og það fer best á því að einkaaðilar þrói það áfram,“ segir Pétur.

DEILA