Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, vísar á bug gagnrýni Baldurs Smára Einarssonar, formanns bæjarráðs Bolungarvíkur, á vinnubrögð sín varðandi þreifingar sveitarfélaganna við Djúp um aukna samvinnu og mögulega sameiningu. Gísli Halldór segir í samtali við bb.is að upphaf málsins megir rekja til þess að ráðgjafafyrirtæki í Reykjavík hafi sent erindi til sín þar sem á það var bent að mögulegt væri að sækja um fjárframlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að láta fara fram vinnu þar sem kostir og gallar sameiningar og samvinnu sveitarfélaga yrðu dregnir fram. Hann segir að sveitarstjórnarfólk hafi verið að ræða sín á milli möguleika til samstarfs og sameiningar mest allt kjörtímabilið. „Að minnsta kosti hafa sveitarstjórnarmenn frá Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhreppi gert það. Þegar þessi tillaga berst frá ráðgjafarfyrirtækinu þá þótti mér engin ástæða til að stinga henni undir stól eða fela hana með einum eða öðrum hætti. Ég kynnti hana því í tölvupósti fyrir sveitarstjóranum í Súðavík og bæjarstjóranum í Bolungarvík. Þá kom í ljós að ekki virtist mega ræða málið opinberlega án þess að valda óánægju ráðamanna í Bolungarvík,“ segir Gísli Halldór.
Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í gær var samþykkt að sækja um fyrrgreint fjárframlag Jöfnunarsjóðs og bjóða Súðavíkurhreppi til samstarfs. „Það átti að taka tillöguna fyrir fyrr, en við frestuðum því til að geta fundað óformlega með Bolvíkingum. Á hinum óformlega fundi var ég af Bolvíkingum rukkaður um svör við því hvernig tillagan hefði borist mér og athugasemdir gerðar við aðdraganda málsins. Ég reyndi bara að útskýra fyrir fundinum hvaðan og hvernig fyrirliggjandi tillaga að nálgun hefði borist,“ segir Gísli Halldór og hafnar því að hafa mætt á fundinn með „allt tilbúið“ fyrir Bolvíkinga að kvitta uppá eins og Baldur Smári sagði í samtali við bb.is í gær.
Gísli Halldór segir að tillagan ráðgjafafyrirtækisins sé eins og hver önnur tillaga sem sveitarstjórnarmönnum er frjálst að taka afstöðu til eins og þeim sýnist. „Ég á enga persónulega hagsmuni í þessum sameiningarmálum, nema sem almennur íbúi. Þar að auki hef ég engin völd til að taka ákvarðanir í slíkum málum. Hinsvegar hef ég sem bæjarstjóri tillögurétt fyrir bæjarstjórn og nefndum og ráðum bæjarins. Ef einhverjum líður betur með að ráðast á sendiboðann heldur en að þurfa að horfast í augu við skilaboðin þá verður bara svo að vera.“
Að sögn Gísla Halldórs hefur í samtölum sveitarstjórnarfólks í Ísafjarðarbæ og í Súðavíkurhreppi komið skýrt fram að sveitarfélögin eiga mikla sameiginlega hagsmuni af því að vel takist til með fyrirliggjandi uppbyggingu í ferðaþjónustu og fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. „Ísafjarðarbær er með stóra og öfluga stjórnsýslu í samanburði við nágrannasveitarfélögin og hefur auk þess náð frábærum árangri í skólastarfi og félagsþjónustu.“
Gísli Halldór segir að það sé alveg réttmæt að gagnrýna hvernig til tókst með sameiningarnar 1996 þegar sex sveitarfélög sameinuðust í Ísafjarðarbæ. „Við erum á þessu kjörtímabili að gera eins og hægt er til að bæta fyrir það sem ekki hefur heppnast nógu vel,“ segir hann og bætir við að ef fram fer skoðun á kostum og göllum sameiningar á yfirstandandi kjörtímabil þá verður fyrri reynsla af sameiningum alveg örugglega notuð sem mælistika og þess gætt að falla ekki aftur í sömu gryfjurnar.
„Það er hinsvegar nauðsynlegt að horfast í augu við verkefnið og leita allra leiða sem færar kunna að vera til að færa íbúum aukna hagsæld, betra samfélag og betri þjónustu. Hvort það felst í sameiningu eða ekki verður bara að koma í ljós og endanleg ákvörðun liggur auðvitað alltaf hjá íbúunum, en ekki einhverjum bæjarstjórum,“ segir Gísli Halldór Halldórsson að lokum.
smari@bb.is