Norðaustanáttin hefur ráðið ríkjum alla vikuna á Vestfjörðum og verður svo áfram í dag með vindhraða 5-13 m/s fyrripart dags en 10-18 m/s síðdegis. Það verður skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Það verður rigning eða slydda í nótt en snýst í suðaustan 5-10 m/s í fyrramálið og þá styttir að mestu upp. Hiti verður á bilinu 0 til 4 stig. Á sunnudag gerir Veðurstofa Íslands ráð fyrir suðlægri eða breytilegri átt á landinu, 5-10 m/s. Víða verður rigning eða slydda um morguninn en úrkomulítið á Norður- og Vesturlandi síðdegis. Hiti verður 0 til 5 stig að deginum.
Í dag er búist við stormi á landinu sunnanverðu og búast má við snörpum vindhviðum við fjöll við suðurströndina, undir Eyjafjöllum, í Öræfum og einnig á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Vindhviður gætu farið upp í allt að 35 m/s SV-til en 40 m/s seint í dag og í kvöld með suður og suðausturströndinni.
Á Vestfjörðum eru víða aðeins hálkublettir eða alveg autt á láglendi en hálka eða snjóþekja á fjallvegum og einhver skafrenningur.