Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í gær lagði Sigurður J. Hreinsson fram eftirfarandi tillögu f.h. allra viðstaddra bæjarfulltrúa að umsögn bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um fyrirliggjandi frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak. Í umsögn bæjarstjórnar kemur fram eindregin andstaða við frumvarpið.
„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir yfir andstöðu við frumvarp að breytingu á lögum (86/2011) um verslun með áfengi og tóbak.
Í frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt og smásala verði að ákveðnu marki frjáls ? bjór, léttvín og sterkt áfengi verði þar með selt í almennum verslunum. Að auki er í frumvarpinu lagt til að leyfa auglýsingar á áfengi.
Á undanförnum 20 árum hafa sveitarfélög eflt forvarnir gegn áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna með góðum árangri. Í evrópskri vímuefnarannsókn frá árinu 2015 má sjá að íslenskir unglingar eru ólíklegri en evrópskir unglingar til að hafa drukkið áfengi, slíkur árangur er ekki sjálfsagður. Einsýnt er að með breytingunum er gerð aðför að þessum góða árangri sem náðst hefur í forvarnastarfi.
Hugmyndir sem þessar, sem ganga gegn lýðheilsusjónarmiðum og fara þvert gegn ráðgjöf þeirra sérfræðinga sem hafa það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í umræðu og ákvarðanatöku, eru ekki bara í andstöðu við almenna skynsemi heldur getur framkvæmd þeirra verið beinlínis hættuleg. Frumvarpið er taktlaust og er með því lagt til að fara þvert gegn stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnavörnum og vinna gegn markvissu forvarnastarfi sveitarfélaga undanfarinna ára, auk þess sem það stangast á við aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn lífsstílstengdum sjúkdómum sem og nýlega samþykktum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Landlæknir, heilbrigðisstarfsfólk, samtök lækna, Vá Vest hópurinn og fjölmargir aðrir aðilar sem vinna að heilsueflingu og velferðarmálum vara eindregið við samþykkt frumvarpsins og þeirri breytingu sem í því felst. Bent hefur verið á rannsóknir sem sýna að með mikilli fjölgun sölustaða mun aukið aðgengi að áfengi leiða til aukinnar neyslu ? meðal annars meðal barna og ungmenna.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur ríka áherslu á forvarnastarf og vill hafa í forgangi að búa börnum og ungmennum sem best uppvaxtarskilyrði. Heilsa íbúa, hagsmunir og velferð barna og ungmenna eiga að njóta forgangs í allri stefnumörkun ríkisins. Aukinn áróður í formi áfengisauglýsinga og aukið aðgengi að áfengi gengur gegn því sjónarmiði.“
Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
bryndis@bb.is