Hátt í 50 keppendur körfuknattleiksdeildar Vestra og fjölmennt fylgdarlið er nú óðum að leggja í hann á stærsta körfuboltamót landsins, Nettómótið í Reykjanesbæ, sem fram fer um helgina. „Það hafa aldrei farið fleiri frá okkur og auk keppenda er fjöldi foreldra með í för, samtals eitthvað á annað hundrað manns,“ segir Birna Lárusdóttir, formaður barna- og unglinaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra. Birna hefur verið í eldlínu körfuboltans á Ísafirði um árabil og segir þá breytingu hafa orðið á mótum yngstu keppenda að foreldra vilja fylgja sínum börnum. „Það er lítið um að við sendum rútur með keppendur, foreldrar keyra bara með sínum börnum.“ Körfuboltinn á Ísafirði er í sókn að sögn Birnu og hún merkir strax jákvæð áhrif af sameinuðu íþróttafélagi, en Vestri varð til á síðasta ári þegar KFÍ, BÍ/Bolungarvík, Blakfélagið Skellur og Sunddeild Vestra sameinuðust. „Á síðasta ári réðum við þjálfara í fullt starf og það er að skila sér,“ segir Birna og þá er ekki úr vegi að minnast á að 9. flokkur drengja varð í síðasta mánuði bikarmeistari í sínum flokki.
Nettómótið er samstarfsverkefni Keflvíkinga og Njarðvíkinga og er nú haldið í 27. sinn. Þetta er langstærsta mót sinnar tegundar á landinu ætlað börnum í 1.-5. bekk. Keppendur verða hátt í 1.400 en alls hafa 23 félög boðað þátttöku sína á mótið með 238 keppnislið. Búið er að setja upp 548 leiki á 15 leikvöllum í 6 íþróttahúsum.
Tilhlökkunin er að vonum mikil í herbúðum Vestra en Nettómótið er gjarnan fyrsta alvöru mót margra körfuboltakappa. En
Engin stig eru talin og allir fara heim með verðlaun að móti loknu. Gestgjafarnir standa einstaklega vel að öllu mótshaldi og tryggja að ekki er dauð stund alla helgina hjá þessum vösku íþróttakrökkum. Löng hefð er fyrir þátttöku vestfirskra körfuboltakrakka á Nettó en þetta er þó í fyrsta sinn sem keppt er undir merkjum hins nýja íþróttafélags, Vestra.
smari@bb.is